Skattar á atvinnuhúsnæði eru sexfalt hærri en skattar á íbúðarhúsnæði. Sveitarfélög leggja að meðaltali 1,64% fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði samanborið við 0,29% á íbúðarhúsnæði. Þetta kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs.

Í henni segir að misræmi sé í skattlagningu fasteigna og að munurinn á skattlagningu atvinnu- og íbúðahúsnæðis valdi skekkju í fjárfestingum og aukinni þörf fyrir kostnaðarsamt eftirlit. Þá er einnig vísað til þess að viðskipti með fasteignir eru skattlögð með stimpilgjöldum sem draga úr hagkvæmni á fasteignamarkaði að mati Viðskiptaráðs.

Þar er einnig gagnrýnt að byggingar séu skattlagðar í meiri mæli en lóðir og jarðir sem skapar neikvæða hvata þegar kemur að uppbyggingu og hagkvæmri byggðaþróun.

Í skoðun Viðskiptaráðs er lagt til þess að stjórnvöld ráðist í ferns konar úrbætur. Í fyrsta lagi að samræma skattlagningu á fasteignamarkaði fyrir ólíkar tegundir húsnæðis. Í öðru lagi að afnema stimpilgjöld vegna fasteignaviðskipta. Í þriðja lagi að skattleggja landsvæði í stað bygginga. Í fjórða lagi að auka gagnsæi við álagningu fasteignaskatta. Slíkar breytingar myndu auka skilvirkni á fasteignamarkaði og styðja þannig við vaxandi framleiðni án þess að skatttekjur hins opinbera skerðist.

Hér er hægt að lesa skoðun Viðskiptaráðs í heild sinni.