*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 3. júní 2015 17:32

Segja MP banka nefndan í bréfinu

Í bréfi var því hótað að uppljóstra um aðkomu forsætisráðherra að lánveitingu MP banka vegna kaupa á DV.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hótunin sem kom fram í bréfinu sem sent var á heimili Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra fólst í því að meint aðkoma hans að lánafyrirgreiðslu til Pressunnar eða félögum tengd fyrirtækinu yrðu gerð opinber. Þessu greinir Vísir frá.

 Eins og VB.is greindi frá systurnar Malín Brand, blaðamaður á Morgunblaðinu, og Hlín Einarsdóttur, fyrrverandi ritstjóri Bleikt.is handteknar fyrir helgina í tengslum við rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tilraun til að kúga fé af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra. Við yfirheyrslur játuðu konurnar að hafa sent umrætt bréf og var þeim sleppt að yfirheyrslum loknum.

Í framhaldi af því greindi Vísir frá því að systurnar hafi hótað að tengja Sigmund Davíð við kaup Björns Inga á DV fengju þær peningana ekki greidda. Björn Ingi sagði í stöðuuppfærslu í gær að forsætisráðherra hefði ekki fjármagnað kaup Pressunnar á DV og að um mannlegan harmleik væri að ræða. 

Vísir greinir frá því að ekki eru til nein opinber gögn sem tengja ráðherrann við fjölmiðlaveldi Björns Inga Hrafnssonar, útgefanda og eins aðaleigenda Pressunnar ehf., sem fer með eignarhald nokkurra fjölmiðla. 

Fullyrða að MP banki sé nefndur í bréfinu

Nú greinir Vísir frá því að samkvæmt heimildum þeirra fólst hótunin í því að gögn um aðkomu Sigmundar eða aðilum tengdum honum við lánafyrirgreiðslu úr MP banka til Pressunnar yrðu gerð opinber. Meint aðkoma ráðherra hafi átt sér stað eftir að hann tók við embætti sem forsætisráðherra, árið 2013.