N1 er góður fjárfestingakostur til þriggja ára, að mati ráðgjafafyrirtækisins ENTRA sem gerði verðmat á fyrirtækinu. Útboð á hlut í N1 hófst á föstudaginn og lýkur í dag.

Segir ENTRA að forsendur fyrir mati sínu séu fyrst og fremst möguleg framlegðaraukning og markmið stjórnenda um hækkun EBITDA sem hlutfalli af framlegð. „Fjölgun ferðamanna og lenging ferðamannatímabilsins hefur jákvæð áhrif á rekstur félagsins en það hefur nú þjónustusamning við Icelandair og býr að auki yfir þéttu neti þjónustustöðva hringinn í kringum landið,“ segir ENTRA.

Útboðsgengi N1 er 13,5-15,3 en ENTRA segir að virði félagsins sé 14,7 á hlut. Markgengið til 12 mánaða sé 17,1.