Páll Matthíasson, forstjóri Landspitalans (LSH), telur að í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í gær felist niðurskurðarkrafa upp á 1,2 til 1,7 milljarða króna. Hann telur þetta mistök. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við Fréttablaðið þetta ekki rétt. Ekki sé verið að skera niður framlög til spítalans.

Fram kemur i fjárlögunum að framlög til LSH eru óbreytt á milli ára eða 38,5 milljarðar króna.

Páll Matthíasson, forstjóri LSH,segir í samtali við Fréttablaðið hljóta um misskilning að ræða sem verði leiðréttur.

„Þetta eru vissulega vonbrigði en við gerum ráð fyrir því að stjórnvöld standi við þau orð um að styrkja rekstur spítalans sem og tæki og aðstöðu á þeim vikum sem í hönd fara,“ segir hann.

Páll tók við starfi forstjóra LSH í vikunni af Birni Zoëga. Björn sagði upp á föstudag vegna þess sem hann sagði fyrirliggjandi niðurskurð á rekstri til LSH.