Greining Íslandsbanka segir að niðurstaða í útboði ríkisvíxla í gær hljóti að hafa komið Seðlabanka og fjármálaráðuneyti óþægilega á óvart. Mun minni spurn var eftir víxlum en verið hefur í útboðum síðustu mánaða og vaxtakjörin óhagstæðari en í maímánuði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun. Alls bárust tilboð fyrir ríflega 17 milljarða króna að nafnverði en tilboðum var tekið fyrir 14 milljarða að nafnverði. Til samanburðar var heildarupphæð tilboða á sjötta tug milljarða í útboðum undanfarinna þriggja mánaða.

Flatir vextir í teknum tilboðum voru á bilinu 3,99% - 7,5% og meðalvextir voru 6,45%.

„Mikið bil milli hæstu og lægstu tilboða er athyglisvert og bendir til þess að hjá einhverjum fjárfestum hafi verið væntingar um mikla eftirspurn í útboðinu meðan aðrir hafi fremur miðað tilboð sín við kröfu ríkisbréfa,“ segir í Morgunkorni í morgun.

Greining Íslandsbanka segir verulega óvissu ríkja um hvert þeir miklu fjármunir muni leita sem losna við gjalddaga ríkisbréfa, ríkisvíxla og innstæðubréfa það sem eftir lifir mánaðar.

Sjá nánar í Morgunkorni.