Samtök lánþega segja að dómur Hæstaréttar frá því í gær, í máli Tölvupóstsins ehf. gegn Frjáls fjárfestingabankanum, sýni að afturvirkur vaxtaútreikningur sé ólöglegur.

Samtök lánþega segja þetta vera stóran sigur fyrir lánþega, hvort sem er einstaklinga eða lögaðila.

Kröfum Tölvupóstsins ehf. í málinu var þó hafnað af Hæstarétti. Eigendur Tölvupóstsins kærðu úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. september 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að viðurkennt yrði að krafa hans upp á 1.025.826 krónur njóti stöðu í réttindaröð við slit varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðilar kröfðust þess að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi og framangreind krafa hans tekin til greina.

Í grunninn snérist málið um ágreining við Frjálsa fjárfestingabankann um hvort lán teldust vera gengistryggð lán í krónum eða lán í erlendri mynt. Þá var einnig deilt um hverjir ættu að vera vextir á lánunum.

„Verður að teljast til tíðinda að jafn lítil og fjárvana samtök leggi út í slíka skuldbindingu á sama tíma og öll helstu samtök alþýðunnar þora helst ekki að opna munninn gegn fjármálafyrirtækjum," segir í tilkynningu frá Samtök lánþega. Ennfremur segir:

„Í nýföllnum úrskurði er fyrst að telja að Hæstiréttur heimilar ekki afturvirkan vaxtaútreikning og miðast vaxtabreyting lána því við dómsuppsögu.

Í öðru lagi er viðurkennt að öll gengistryggð húsnæðislán sem eru efnislega samhljóða lánum Frjálsa fjárfestingabankans hf., bera ólögmæta gengistryggingu.

Í þriðja lagi er ljóst að uppgjör á gengistryggðum lánum eins og það er fram sett í nýsettum lögum efnahags- og viðskiptaráðherra er andstætt niðurstöðu Hæstaréttar.

Í fjórða lagi er hér viðurkennt, þvert á téð lög, að lögaðilar njóti sama réttar og einstaklingar við uppgjör á lánum með ólögmæta gengistryggingu.

Því er ljóst að lögin eru ekki bara gagnslaus til viðmiðunar við uppgjör lána með ólögmæta gengistryggingu. Heldur ganga þau í öllum meginatriðum gegn rétti lánþega.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er ljóst, að stöðva verður þegar innheimtu fjármálastofnana á afturvirkum vaxtagreiðslum. Jafnframt er ljóst að Alþingi verður að endurskoða lögin og jafnvel draga þau til baka. Ennfremur verða fjármálafyrirtæki að senda lánþegum nýja útreikninga vegna uppgjörs á lánum sem innihalda ólögmæta gengistryggingu.

Þangað til þessum skilyrðum er fullnægt er lánþegum gert ókleyft að greiða af umræddum lánum, enda algjör og fullkomin óvissa um uppgjör og eftirstöðvar."

Ekki hefur náðst í Árna Pál Árnason, efnhags- og viðskiptaráðherra, í morgun til að bera það undir hann hvort dómur Hæstaréttar í fyrrnefndu máli hafi áhrif á það hvernig gera skuli upp gengistryggð lán í krónum.