Framtíðarskipa húsnæðismála sem félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti í síðustu viku mun ganga af séreignasparnaðarkerfinu dauðu. Þetta er mat þeirra Kára Arnórs Kárasonar, framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Stapa, og Þóreyjar S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða.

Í Fréttablaðinu í dag er rifjað upp að tillagan miði að því að varanlega verði hægt að nýta séreignarsparnað til fasteignakaupa.

Kári Arnór segir: „Það er nokkurn veginn verið að ganga af viðbótarlífeyrissparnaðarkerfinu dauðu. Þetta er ekki lífeyrissparnaður ef þetta á að vera varanlegur valkostur. Að mínu viti kemur það ekki til álita að lífeyrissjóðir séu nýttir í að innheimta iðgjöld af launagreiðendum til þess að greiða einhverjum lána stofnunum fyrir einstaklinga. Lífeyrissjóðirnir eru ekki til þess. Ef menn vilja búa til eitthvað sem heitir húsnæðissparnaður á það ekki að fara í gegnum lífeyrissjóðina," segir hann.

Þórey segir það vekja spurningar ef lagt sé til að kerfinu verði nánast breytt í varanlegt húsnæðissparnaðarkerfi. Það sé andstætt upphaflegu hugmyndinni sem gengið var út frá með stofnun viðbótarlífeyrissparnaðarkerfisins.