Changi flugvöllurinn í Síngapúr, sem hefur verið valinn sá besti í heimi undanfarin átta ár, varar við því að „ógnvekjandi tímar" séu framundan þar sem kórónuveirufaraldurinn sýni engin merki um að vera í hnignun. BBC greinir frá.

Til að bregðast við hruni í komum og brottförum farþegaflugvéla hefur flugvöllurinn lokað tveimur af flugstöðvum sínum, en flugferðir um flugvöllinn hafa aldrei verið jafn fáar og nú í sögu vallarins. Þá stóð til að hefja framkvæmdir við fimmtu flugstöð flugvallarins en sökum ástandsins hefur þeim framkvæmdum verið slegið á frest.

„Baráttan við COVID-19 er einungis rétt að hefjast. Ógnvekjandi tímar blasa við þar sem ekkert bendir til þess að útbreiðsla veirunnar fari minnkandi," segir í ársskýrslu flugvallarins.