Jens Bjarnason hjá Icelandair.
Jens Bjarnason hjá Icelandair.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Í lok síðasta mánaðar, eða 30. desember síðastliðinn, birtist frétt á fréttamiðli í Grænhöfðaeyjum um að alþjóðlegt flugfélag landsins, Cape Verde Airlines, hefði ekki enn greitt út laun desembermánaðar. Samkvæmt fréttinni staðfesti Jens Bjarnason forstjóri félagsins tafirnar á útgreiðslu launanna, en sagði þær venjulega greiddar út í byrjun mánaðarins.

Eins og glöggir lesendur taka eflaust eftir birtist fréttin einmitt fyrir mánaðarmót, fyrir eða á hefðbundnum útborgunardegi eftir atvikum, og er þar haft eftir Jens að honum þyki leitt að félagið hafi ekki borgað út desemberlaunin fyrir jól.

Samkvæmt uppfærðri frétt Mannlífs um málið frá í dag, sem ber yfirskriftina „Flugfélag í eigu Íslendinga greiðir ekki laun“, segir Jens málið vera byggt á misskilningi. Það hafi verið skilningur einhverra starfsmanna að greiða ætti laun fyrir jól sem ku tíðkist hjá sumum fyrirtækjum í landinu og hafi verið gert hjá flugfélaginu fyrir aðkomu Íslendinga.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um aðkomu fjárfestahóps sem leiddur er af Icelandair inn í ríkisflugfélag eyjarinnar á fyrri hluta síðasta árs, en félagið hafði áður komið að endurskipulagningu flugfélagsins samkvæmt sérstökum samningi þar um við Loftleiðir, dótturfélag Icelandair. Einnig hafði félagið skoðað fjárfestingar í flugfélagi Azoreyja . Meðal annarra fjárfesta í hópnum má nefna Björgólf Jóhannsson fyrrum forstjóra Icelandair og nú tímabundinn forstjóri Samherja.

Kannast Jens ekki við að fyrirtkækið glími við lausafjárvanda, en í fréttamiðli landsins hafði verið sagt að það hafi gerst áður að laun hafi ekki borist, og framvegis verði reynt að tryggja að laun berist fyrir jól í desembermánuði. Jens leggur þvert á móti áherslu á að öll laun hafi verið greid á réttum tíma, samkvæmt lögum og reglum í landinu, fyrir áramót. Það er sama dag og upphaflega fréttin birtist.

Hér má lesa frekari fréttir um fjárfestingar Icelandair í öðrum flugfélögum á Atlantshafseyjum: