Háttsettur, rússneskur embættismaður lét þau orð falla á fundi NATO í Berlín í dag að Vesturlöndum stæði ekki ógn af orkustefnu rússneskra stjórnvalda. „Við erum sagðir koma vilja okkar fram með efnahagslegum þvingunum í gegnum orkustefnu," sagði Dmitri Rogozin við ITAR-Tass fréttastofuna. Dow Jones segir frá þessu í dag.

Rogozin segir þetta hrein ósannindi, og benti á að orkuframboð frá Rússlandi til Evrópu yrði áfram nægilegt: „Þau lönd sem ekki borga gætu lent í vandræðum, en Vesturlönd hafa hingað til staðið skil á sínu."

Evrópusambandið hefur líst því yfir að fjölga þurfi leiðum orkuöflunar fyrir aðildarríki sín, en svæðið er einstaklega háð Rússlandi hvað varðar útvegun jarðgass. Talið er að Moskva geti notað þessa stöðu til að beita pólitískum þrýstingi ef þess þarf.

Sérstakar áhyggjur vekja deilur Rússa og Úkraínu vegna orkuverðs, en gasleiðslur til Evrópu frá Rússlandi liggja flestar hverjar í gegnum Úkraínu.