Samtökin Betri spítali, sem berjast fyrir því að nýr Landspítali verði reistur á nýjum stað segja að fyrir utan Framsóknarflokkinn, séu Píratar, Dögun, Flokkur fólksins og Þjóðfylkingin efnislega sammála samtökunum.

Stefnuskrá Pírata og Framsóknar samhljóða

Framsóknarflokkurinn hefur lýst yfir vilja til að láta gera faglega staðarvalsgreiningu varðandi staðsetningu nýja spítalans og vísa samtökin í fréttatilkynningu sinni til orða Lilju Alfreðsdóttur um að slík greining verði gerð á næstu 6 mánuðum sem myndu ekki trufla framkvæmdir við Hringbraut.

Vísa samtökin einnig í stefnuskrá Pírata um að ákvörðun um staðsetningu verði tekin í kjölfar þess „gerð verði opin, faglega staðarvalsgreiningu á helstu mögulegum staðsetningum nýja Landspítalans, á höfuðborgarsvæðinu.“

Einnig Dögun, Flokkur fólksins og Þjóðfylkingin

„Dögun, Flokkur fólksins og Þjóðfylkingin vilja einnig að gerð verði fagleg staðarvalsgreining til að finna bestu staðsetningu.

Aðrir flokkar vilja ljúka við Hringbraut sem okkur hjá Betri spítala þykir furðuleg afstaða þar sem við og fleiri hafa bent á að fá má nýjan og mun betri spítala á mun betri stað og jafnvel fyrr en hægt er við Hringbraut inn á milli spítalabygginganna, sem svo þarf að endurbyggja.

Niðurstaðan verður spítali í a.m.k. 17 byggingum við Hringbraut nýjum og gömlum tengdum saman með lögnum gögnum sem sagt mun lélegri en nýr spítali á nýjum stað.“ segir í fréttatilkynningu Betri spítala.

Segja staðsetninguna stærsta einstaka heilbrigðismálið

„Nýr Landspítali á besta stað er líklega stærsta einstaka heilbrigðismál þjóðarinnar um þessar mundir.

Um 70% þjóðarinnar vill eðlilega ekki hafa spítalann við Hringbraut og um 60% nefna Vífilsstaði sem heppilegan stað.

Það er afar mikilvægt að fjallað sé um staðarvals spurninguna með eðlilegum hætti í kosningabaráttunni.  Það er fráleitt annað en fjalla um málið og fá fram afstöðu flokkanna til málsins.“