Endurskoðendafyrirtækið PricewaterhouseCoopers (PwC) greiddi Glitni hundruð milljóna króna til að komast hjá málshöfðun slitastjórnar á hendur fyrirtækinu hér á landi og í Bretlandi. Stafræna fréttatímaritið Kjarninn fjallar um málið í dag og segir að í kjölfarið hafi verið fallið frá tveimur málum Glitnis gegn PwC auk þess sem PwC, sem var endurskoðandi Glitnis, féll frá skaðabótamáli sem það hafði höfðað gegn slitastjórn Glitnis vegna málareksturs fyrir dómstóli í New York. PwC hafði farið fram á rúmar 82 milljónir króna í skaðabætur.

Í máli sem slitastjórn Glitnis höfðaði á sínum tíma í New York á hendur PwC var fyrrverandi stjórn Glitnis, hluthöfum og forstjóra, sömuleiðis stefnt. Þar á meðal voru Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson, Þorsteinn M. Jónsson, Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri FL Group, Pálmi Haraldsson og Ingibjörg Pálmadóttir. Málið ytra skilaði engu. Í kjölfarið fóru hinir stefndu fyrir utan PwC öll í skaðabótamál gegn Glitni vegna þessa og krefjast tugi milljarða króna í bætur vegna kostnaðar við málið.

Í Kjarnanum segir að í máli Glitnis gegn PwC séu tilgreind fimm atriði þar sem PwC á að hafa brotið gegn lög- og samningsbundnum skyldum sínum. Í fyrsta lagi hafi PwC ekki upplýst að stjórnendur Glitnis hafi veitt útlán til innbyrðis tengdra aðila langt umram leyfileg hámörk, leynt útlánaáhættu bankans til tengdra aðila, veitt stórfelld útlán til fjárvana eignarhaldsfélaga, vanrækt afskriftarskyldu sína og vanrækt að upplýsa um þá gríðarlega miklu fjárhagslegu hagsmuni sem bankinn var með í eigin bréfum með þeim afleiðingum að eigið fé hans var verulega of hátt skráð.