Raungengi krónunnar er nú talsvert lægra en verið hefur síðustu þrjá áratugi segir Greining Íslandsbanka. Lætur nærri að hlutfallslegt verð á neysluvörum og þjónustu hér á landi miðað við önnur lönd hafi verið 30% lægra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en raunin var að meðaltali undanfarin 30 ár og staðan er svipuð þegar launakostnaður á Íslandi er borinn saman við viðskiptalönd okkar.

Ísland er því ódýrt land þessa dagana, hvort sem miðað er við verðlag eða launakostnað. Að sama skapi finna landsmenn fyrir lágu raungengi í því hversu dýrt uppihald í utanlandsferðum er þessa dagana, mælt í krónum, og eins því hversu hagstæð launakjör í nágrannalöndum virðast nú vera  í krónum talið bendir Greining Íslandsbanka.

Í Morgunkorni er bent á að íÍ nýlega birtum tölum Seðlabankans um raungengi kemur fram að raungengi í mars, mælt á kvarða hlutfallslegs verðlags, lækkaði um 2,4% á milli mánaða. Lækkunin skrifast að mestu á veikingu krónu milli mánaða en væntanlega einnig á 0,6% lækkun vísitölu neysluverðs hér á landi í mars. Mældist raungengi á þennan mælikvarða 77,7 stig, en til samanburðar hefur raungengið að meðaltali verið 98 stig undanfarin 30 ár.