Fjárveitingar til hefðbundinna verkefna Samkeppniseftirlitsins hafa verið skornar niður um 20% að raungildi frá hruni, að því er segir í frétt á vefsíðu eftirlitsins. Eru þá ekki taldar með lítilsháttar fjárveitingar til nýrra verkefna sem Samkeppniseftirlitinu hafa verið falin, eins og það er orðað á vefsíðunni.

Tilefni skrifanna er frétt Stöðvar 2 frá því í gær, þar sem fjallað var um að kostnaður af rekstri eftirlitsstofnana hefði aukist um mörg hundruð prósent á síðustu árum. Samkeppniseftirlitið var ein þeirra stofnana sem fjallað var um.

Á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins segir að niðurskurðurinn nemi um 25% ef ekki eru taldar með tímabundnar fjárveitingar til næstu tveggja ára.

„Í fréttinni tölum við um fjárveitingar til hefðbundinna verkefna og hvernig þær hafa þróast að raungildi frá hruni. Á síðustu árum hafa bæst við ný verkefni og þeim hafa fylgt lítilsháttar aukafjárveitingar. Það er órökrétt að bæta þeim við þegar bera á saman eftirlitið og fjárveitingar til þess annars vegar fyrir hrun og í dag hins vegar,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Í fjárlögum fyrir árið í ár er gert ráð fyrir því að fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins nemi rúmum 333 milljónum króna. Árið 2008 námu fjárveitingarnar 277 milljónum, en ef miðað er við meðalverðlag í ár jafngildir það 370 milljónum króna. Samdráttur í raunvirði fjárveitinga á milli 2008 og 2013 nemur því rúmum 10%. Hafa ber í huga að hér eru tekin inn í heildarfjárveitingar, þar á meðal áðurnefndar viðbætur sem Páll Gunnar nefnir í svari sínu.