Þrettán fyrirtæki sem fengu styrki úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 höfðu greitt framlagið 20 til 40-falt til baka í fyrra, samkvæmt samantekt Samtaka iðnaðarins (SI) um verðmætasköpun og tekjuöflun ríkissjóðs af fyrirtækjum sem hafa notið styrkja til nýsköpunar- og þróunarverkefna. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár að lækka framlag í Tækniþróunarsjóðs um tæpar 600 milljónir króna til ársins 2016 frá því sem áður hafði verið boðað. Sömuleiðis er boðuð lækkun á endurgreiðsluhlutfalli vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna úr 20% í 15%.

Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá SI, segir að á sama tíma bjóði nágrannaríkin framsæknustu fyrirtækjunum hér á landi margvíslega fyrirgreiðslu og hvata ef þau flytja starfsemi sína til þeirra. Bretland freistar margra í þessu sambandi.