Íslensk fyrirtæki greiða 30 milljörðum meira í tryggingagjald í dag en árið 2008 eða um 74 milljarða króna. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir stjórnvöld hafa rofið samkomulag milli stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði um að launagreiðendur standi skil á ýmsum kostnaði sem tengist vinnumarkaðnum, en gjöldin hafi átt að lækka með minnkandi atvinnuleysi. Það hafi hins vegar ekki gerst. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Þorsteinn segir í samtali við Fréttablaðið að tryggingagjaldið hafi verulega letjandi áhrif á atvinnulífið og það hafi axlað byrðar atvinnuleysisins eftir hrunið í því trausti að álögur yrðu lækkaðar þegar úr því drægi. „Það veldur miklum vonbrigðum að ekki sé staðið við þá lækkun sem átti að eiga sér stað. Stjórnvöld hafa algjörlega rofið samhengið þarna á milli, og það er alvarlegt mál.“