Tölur Hagstofunnar um samdrátt í landsframleiðslu koma ekkert sérstaklega á óvart, að mati Hagfræðideildar Landsbankans . Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar dróst landsframleiðsla saman um 0,1% á fyrsta ársfjórðungi. Deildin er enn bjartsýn á hagþróun ársins og segir í sjálfu sér ekkert í tölunum fyrir fyrsta ársfjórðungi sem gefi tilefni til að ætla að grunnforsendur spárinnar fyrir árið í heild hafi breyst. Deildin spáir 3,2% hagvexti á þessu ári.

Fyrr í dag sagði Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka , þrennt skýra samdráttinn. Það megi skrifa á birgðabreytingu, aukningu í innflutningi á þjónustu og vexti í einkaneyslu og fjárfestingu.

Hagfræðideildin segir samdráttinn nú skýrast fyrst og fremst af neikvæðu framlagi utanríkisviðskipta. Það skýrist aftur af verri aflabrögðum í loðnuveiðum og minni útflutningi áls. Á móti jókst einkaneyslan um 3,9% á fjórðungnum, samneyslan um 2% og fjárfesting um 17,6%. Útflutningur jókst um 6,2% og innflutningur tæplega tvöfalt meira eða 11,9%.