Miðstjórn Alþýðusambands Íslands krefst þess að Samtök atvinnulífsins beiti sér fyrir því að gengið verði hið fyrsta frá kjarasamningi á milli ISAL og hlutaðeigandi verkalýðsfélaga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ .

Í tilkynningunni segir að staðan sem komin er upp í Strausmvík og framganga Samtaka atvinnulífsins í málinu sé afleitt innlegg í það samkomulag sem aðilar á vinnumarkaði skrifuðu undir fyrir fáeinum dögum. „Það er með miklum ólíkindum að SA skuli ganga erinda Rio Tinto og halda starfsmönnum eins fyrirtækis í gíslingu,“ segir í tilkynningunni. „Þannig er komið í veg fyrir að þeim verði boðin sama launahækkun og flestir launamenn á íslenskum vinnumarkaði hafa fengið.“

Kjarni kjaradeilu Rio Tinto Alcan í Straumsvík og starfsmanna álversins er krafa þess um að fá að bjóða fleiri stöðugildi út í verktöku sem starfsmenn hafa hafnað.