Á sama tíma og kínversk stjórnvöld fagna því að 20 ár eru síðan Bretar afhentu stjórnvöldum í kínverska kommúnistaríkinu á meginlandi kína yfirráð yfir Hong Kong, hefur talsmaður utanríkisráðuneytis landsins, Lu Kang, sagt samning Kína við Bretland um stöðu Hong Kong í 50 ár ekki lengur skipta máli.

Á sama tíma og kínversk stjórnvöld hafa fagnað afhendingunni með flugeldasýningum og innsetningu nýs héraðsstjóra, Carrie Lam, sem álitin er vera mjög höll undir stjórnvöld, fóru þúsundir út á götur til að mótmæla.

Hafa stjórnvöld síðustu daga verið dugleg að handtaka leiðtoga mótmælenda, meðal annars Joshua Wong, hinn tvítuga leiðtoga regnhlífarmótmælanna sem skóku borgina árið 2014. Kom Xi Jinping, forseti Kínversa alþýðulýðveldisins, í fyrsta sinn til eyjarinnar til að taka þátt í hátíðarhöldunum og sverja nýjan héraðsstjóra inn í embættið.

Sjálfstjórnarréttindin að hverfa

Kröfðust mótmælendur þess meðal annars að stjórnvöld virtu sérstaka stöðu og sjálfstjórn héraðsins, sem mælt var fyrir um í samningnum við Bretland, en til hans var oft vísað sem eitt ríki, tvö kerfi. Fengu íbúarnir ákveðin sjálfsákvörðunarréttindi með samningnum ásamt því að dómstólar héraðsins héldu sjálfstæði sínu.

Mótmæli og málfrelsi hafa verið umborin í héraðinu, ólíkt því sem gildir á meginlandinu sjálfu, en mótmælendur eru á því að sérstök réttindi þeirra séu að hverfa smátt og smátt.

Hafa stjórnvöld í Kína til að mynda komið í veg fyrir að þeir kjörnu fulltrúar í löggjafarsamkundu héraðsins sem hlynntir eru sjálfstæði gætu tekið sæti sín en einnig hefur komið í ljós að fimm útgefendur sem gáfu út efni sem gagnrýndi stjórnvöld var rænt af útsendurum stjórnvalda og haldið í gíslingu mánuðum saman.

Segir samninginn ekki lengur skipta máli

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, lýsti því yfir í gær að bresk stjórnvöld töldu samninginn í fullu gildi, en Lu Kang segir samninginn hins vegar sagnfræðirit. ,,Hann skiptir ekki máli," sagði Lu á fréttamannafundi. ,,Bretland hefur engin yfirráðaréttindi, stjórnskipunarlegan rétt eða eftirlitshlutverk yfir Hong Kong."

Xi Jinping, forseti hefur þó lýst yfir að hann vilji halda áfram einu ríki, tvö kerfi uppsetningunni, á sama tíma og hann segir að ekki verði liðið nein andstaða við yfirráðarétt kínverskra stjórnvalda í héraðinu.