Reykjanesbær, Hafnarfjarðarbær, Orkuveita Reykjavíkur og Geysir Green Energy ehf. hafa gert með sér samkomulag sem hluthafar í Hitaveitu Suðurnesja hf. (HS) segir í tilkynningu. Það er einróma álit samningsaðila að með þessu verði eignarhaldi HS komið í tryggar skorður og eru nýir hluthafar HS einhuga um að vinna ötullega að vexti og viðgangi fyrirtækisins sem sjálfstæðs og öflugs orkufyrirtækis. Höfuðstöðvar HS verða áfram í Reykjanesbæ.


Samkomulagið fjallar um eignarhald þessara aðila á HS, um samstarf þeirra innan félagsins og um framtíðaráherslur í starfi HS. Í samstarfinu er einnig kveðið á um aðkomu Orkuveitu Reykjavíkur og Geysis að ýmsum málum á Suðurnesjum, þ.m.t. málum sem varða Keili, Atlantic Center of Excellence, á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. OR og Geysir hyggjast einnig veita fjárhagslegan og félagslegan stuðning við menningar-, íþrótta- og áhugafélög á starfssvæði Hitaveitu Suðurnesja.


Samkvæmt kaupsamningum sem gerðir hafa verið verður eignarhlutur Reykjanesbæjar 34,75%, eignarhlutur Geysis 32,0%, eignarhlutur Hafnarfjarðarbæjar 15,42% og eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur 16,58%. Sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum; Grindavík, Sandgerði, Garður og Vogar halda samtals 1,25% eignarhlut í HS. Núverandi hluthafar HS munu ekki beita forkaupsrétti sínum í þeim viðskiptum sem framundan eru.


Hafnarfjarðarbær og Orkuveita Reykjavíkur hafa auk þess gert með sér samkomulag um sölurétt Hafnarfjarðarbæjar á hlut sínum í HS til Orkuveitu Reykjavíkur og við nýtingu slíks réttar yrði hlutur
Orkuveitunnar í HS samtals 32,0%.


Gert er ráð fyrir því að stjórn HS verði skipuð 7 mönnum; þremur frá Reykjanesbæ, tveimur frá Geysi Green Energy, einum frá OR og einum frá Hafnarfjarðarbæ.