Í skýrslu dr. Richards Portes og dr. Friðriks Más Baldurssonar segir að verðbólga hafi verið yfir markmiði Seðlabankans, sem er 2,5%, í nokkurn tíma, aðallega vegna hækkandi húsnæðisverðs. Stýrivextir Seðlabanka Íslands séu mjög háir og peningastefna hans virðist hafa lítil áhrif, að miklu leyti vegna starfsemi Íbúðalánasjóðs. Portes og Friðrik Már leggja til að sjóðurinn verði tekinn af samkeppnismarkaði. Þá segja þeir að Seðlabankinn hafi grafið undan peningamálastefnu sinni með því að líta til gengis íslensku krónunnar við vaxtaákvarðanir. Háir stýrivextir leiði til bjögunar í fjármálakerfinu, eins og til að mynda vaxtamunarviðskipta. "Þótt ekki væri nema bara af þeirri ástæðu hvetjum við Seðlabankann til að endurskoða stefnu sína," segir í niðurstöðum skýrslunnar.

Nánar er fjallað um skýrsluna í Viðskiptablaðinu.