Insolidum ehf., í eigu Daggar Pálsdóttur og Páls Ágústs Ólafssonar, fékk lán frá Saga Capital í sumar til að kaupa óskráða hluti í SPRON. Saga Capital Fjárfestingarbanki gjaldfelldi í nóvember í fyrra 580 milljóna króna lán Insolidum ehf. frá bankanum samkvæmt lánssamningi og gerði um leið þá kröfu að verða skráður fyrir öllum hlutabréfum í Insolidum ehf. vegna meintra vanefnda á lánasamningi þess síðarnefnda við lánastofnunina.

Þetta kom fram við aðalmeðferð málsins sem hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þar kom enn fremur fram að Insolidum hefur rift lánssamningnum og í máli Jóhannesar Karls Sveinssonar, lögmanns Insolidum ehf., komu fram upplýsingar um að stjórn SPRON hefði setið ein að upplýsingum um markaðsvirði fyrirtækisins og leiddi hann líkur að því að stofnfjárbréfin sem Insolidum keypti hafi áður verið í eigu Sundagarðs ehf., sem á virkan eignarhlut í Saga Capital.

Enn fremur gerði hann það að umtalsefni að Saga Capital hefði í júnímánuði hafnað Insolidum um lán til kaupa á stofnfjárbréfunum en samþykkt það síðan um mánuði síðar og þá selt Insolidum eigin bréf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf formi hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sent tölvupóst á [email protected] og látið opna fyrir slíkan aðgang.