Samkeppniseftirlitið segir gagnrýni Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) benda til að stóru viðskiptabankarnir þrír hafi ekki meðtekið þann boðskap sem Samkeppniseftirlitið vildi koma á framfæri með umfjöllun um rekstrarkostnað og vaxtamun banka. SFF sagði fyrr í dag að eftirlitið hafi ofmetið aukningu á rekstrarkostnaði bankanna á árunum 2009 til 2011 um sjö milljarða króna. Það rétta væri að kostnaðurinn hafi aukist um 11 milljarða en ekki 18 á þessu árabili. Þar af leiði hafi Samkeppniseftirlitið dregið of víðtækar ályktanir af röngum útreikningum. Að teknu tilliti til samruna og skatta hafi kostnaðurinn hækkað um fimm milljarða.

Samkeppniseftirlitið vísar gagnrýninni aftur til föðurhúsanna og segir þetta svipað mat og komi fram í skýrslunni Fjármálaþjónusta á krossgötum og birt var í síðustu viku. Eftirlitið segir gagnrýnina styðja við þær vísbendingar um að samkeppni á fjármálamarkaði sé áfátt, líkt og Samkeppniseftirlitið rekur í skýrslunni.

Samkeppniseftirlitið segir orðrétt:

„Stóru viðskiptabankarnir eru að stækka með yfirtökum og rekstrarkostnaður þeirra, með og án áhrifa samruna, að aukast. Athuganir Samkeppniseftirlitsins benda eindregið til þess að aðhald með rekstri þeirra sé minna en almennt í rekstri á öðrum sviðum hagkerfisins eftir hrun. Rekstrarkostnaður er þó aðeins einn þáttur í þessari mynd, þó hann gefi vissulega til kynna að samkeppnisaðhaldi á fjármálamarkaði sé áfátt. Aðeins virk samkeppni er líkleg til að knýja bankana til að deila ábata af hagræðingu með viðskiptavinum sínum.“

Vaxtamunurinn settur á herðar heimila og fyrirtækja

Samkeppniseftirlitið er nokkuð harðort í gagnrýni sinni á umfjöllun SFF um skýrsluna og standa m.a. fast á því að vaxtamunur hér sé mun hærri en þar sem hann er hæstur.

„Samtökin gera vaxtasamanburð í skýrslunni að sérstöku umtalsefni. Af því tilefni bendir Samkeppniseftirlitið á að samkvæmt skýrslu framkvæmdastjórnar ESB sem kennd er við Liikanen voru aðeins nokkur lönd í A-Evrópu með vaxtamun sem var yfir 2% af heildareignum. Á flestum hinum Norðurlöndunum var þetta hlutfall undir 1% samanborið við liðlega 3% á Íslandi. Það verður að teljast ótrúverðugur málflutningur að þessi mikli munur sé eðlilegur og stafi aðeins af „aðferðum við bókfærslu“ endurmetinna lánasafna og háu hlutfalli innlána af heildarfjármögnun líkt og SFF gefur í skyn.

Hvað varðar áhrif endurmetnu lánasafnanna á vaxtamuninn þá þurfa bankarnir að sýna fram á að þessi áhrif hafi verið veruleg til þess að hnekkja þeim ályktunum sem fram koma í skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Það hefur SFF ekki gert með neinum hætti. Í þessu sambandi skal það tekið fram að þær vaxtatekjur sem Samkeppniseftirlitið miðaði við innihalda ekki tekjuáhrif af endurmati á virði útlána og krafna sem er sérstakur liður í reikningum bankanna. Áhrif endurmats útlánasafnsins á vaxtatekjur eru því tiltölulega takmörkuð enda þótt þau séu vissulega til staðar vegna beitingar virkra vaxta við tekjufærslur er tengjast endurmetnu lánunum.“

Viðbrögð Samkeppniseftirlitsins