Sjóvá hefur náð til sín kúnnum annarra tryggingafélaga, VÍS, TM og hugsanlega fleiri, að mati IFS Greiningar. Sjóvá birti uppgjör sitt í gær en þar kemur fram að viðsnúningur varð á rekstrinum á fjórða ársfjórðungi þegar 124 milljóna króna tap varð á rekstrinum á fyrsta ársfjórðungi. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður Sjóvár 617 milljónum króna.

IFS Greining telur til að iðgjöld Sjóvár hækkuðu á milli ára um 4,2% og þar sem félagið er nú að draga úr endurtryggingavernd sinni hækkuðu eigin iðgjöld um 6,6%. Hagnaður af vátryggingastarfsemi nam því 318 milljónum króna sem var um 20% hækkun á milli ára.

IFS Greining segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með uppgjör Sjóvár en hafi verið spáð betri niðurstöðu. Vonbrigðin hljóti að teljast afkoma af fjárfestingarstarfsemi félagsins en fjárfestingatekjur í rekstrarreikningi voru neikvæðar um tæpar 60 milljónir króna. Sömu tekjur í fyrra námu um 813 milljónum króna. Samdrátturinn nemur því 872 milljónum króna. Skýringin liggur öðru fremur í þróun í verði ríkistryggðra skuldabréfa. IFS Greining gerði ráð fyrir 544 milljóna króna lækkun fjárfestingartekna á milli ára. Þá var afkoma af fjárfestingastarfsemi neikvæð um 451 milljónir króna en var jákvæð um 486 milljónir á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Inni í báðum tölum er um 104 milljóna króna afskrift óefnislegra eigna.