Lögfræðingar efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar segja skaðabótakröfu Vincent Tchenguiz á hendur embættinu byggða á sandi og engan grundvöll fyrir henni.

Vincent Tchenguiz krefst þess að embættið greiði honum 200 milljónir punda, jafnvirði tæpra 40 milljarða íslenskra króna, í skaðabætur vegna þess tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna rannsóknar á honum í tengslum við lánveitingar Kaupþings. Bróðir hans, Robert Tchenguiz, var einn af helstu viðskiptavinum Kaupþings, fékk mest lánað úr bankanum og lagði hann fram milljarðakröfur í þrotabú bankans. Robert Tchenguiz var jafnframt stjórnarmaður í Existu, félagi að mestu í eigu Bakkavararbræðranna Ágústar og Lýðs Guðmundssona. Félagið var stærsti hluthafi Kaupþings.

Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar gerði húsleit á heimili og skrifstofum Tchenguiz-bræðra vorið 2011 og handtók þá báða. Embættið lét rannsóknina á hendur bræðrunum niður falla í fyrra eftir að í ljós kom að húsleitarheimildin byggði á röngum upplýsingum. Bræðurnir höfðuðu í kjölfarið skaðabótamál.

Í breska dagblaðinu Telegraph er fjallað um málið í dag og tekið fram að tapi efnahagsbrotadeildin málinu þá verða þetta hæstu skaðabætur í sögu embættisins sem það hefur þurft að greiða út.