Í fyrsta sinn í mjög langan tíma er stór hópur ungs fólks að velta því alvarlega fyrir sér hvort hag þess sé betur borgið erlendis vegna aukins atvinnuleysis og minnkandi kaupmáttar. Þetta á sérstaklega við um ungt fjölskyldufólk með lítið af eignum og skuldum.

Þetta segir í nýrri ályktun Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) þar sem skattahækkunum vinstri stjórnarinnar er mótmælt, þær sagðar aðför að ungu fólki og til þess fallin að hrekja ungt fólk úr landi

„Ungir sjálfstæðismenn mótmæla skattahækkunaráformum vinstri stjórnarinnar og harma að ekki skuli frekar leitast eftir því að spara í útgjöldum ríkisins,“ segir í ályktun SUS en jafnframt er vísað til nýlegra niðurskurðartillagna SUS sem sýnir fram á að útgjaldaaukning ríkissjóðs hafi verið gífurleg síðustu árin og því sé töluvert svigrúm til að draga saman seglin og ná fram sparnaði.

„Ungir sjálfstæðismenn hafa áhyggjur af því að skattahækkanir muni af miklum þunga leggjast á unga fólkið í landinu,“ segir í ályktun SUS.

„Þannig verði verulega dregið úr hvatningu til aukinnar menntunnar og aukins vinnuframlags, þar sem ríkisstjórnin vill taka nær helming launatekna einstaklinga til sín með beinum sköttum. Jafnframt munu nýjar skattaálögur  auka atvinnuleysið, þar sem fyrirtækin í landinu, líkt og heimilin, ráða ekki við frekari álögur fjármálaráðherra.“

Þá segir SUS að atgervisflótti leiði til þess að færri vinnufúsar hendur verði hérlendis til að búa til verðmæti og borga skatta. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni því dýpka og lengja kreppuna.

Þá hafna ungir sjálfstæðismenn jafnframt öllum hugmyndum um þrepaskiptingu á tekjuskatti með mismunandi skattprósentu og segir þrepaskiptinguna leiða af sér jaðarskatta, vera vinnuletjandi og skila sér að öllum líkindum ekki í auknum tekjum til ríkisins.

„Tilvist persónuafsláttarins leiðir til þess að við erum í reynd með fjölþrepa skattkerfi, þ.e.a.s. þeir sem hafa hærri tekjur borga ekki bara fleiri krónur heldur líka hærra hlutfall í skatt af sínum tekjum,“ segir í ályktun SUS.

„Sem fyrr segir virðist vinstri stjórninni skorta vilja og kjark til að takast á við nauðsynlegan niðurskurð.  Það vekur jafnframt furðu að niðurskurðartillögur ungra sjálfstæðismanna skuli ekki hafa hlotið náð fyrir eyrum yfirvalda. Stjórn ungra sjálfstæðismanna er þó reiðubúin að ráðleggja bæði fjármálaráðherra og fjárlaganefnd Alþingis hafi fyrrnefndir aðilar í hyggju að spara í ríkisrekstri. Þannig hyggjast ungir sjálfstæðismenn  standa vörð um hagsmuni ungs fólk sem þarf frekar á því að halda að njóta afreksturs erfiðis síns og komast hjá því að afhenda yfirvöldum meirihluta tekna sinna.“