„Ef kröfuhafi metur mál svo að skuldari þurfi að fá skuldir niðurfelldar vegna greiðsluerfiðleika getur skuldarinn aldrei verið borgunarmaður fyrir skatti af niðurfelldri skuld.“ Þetta segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins (SA) og Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) við drögum að frumvarpi fjármálaráðuneytisins um hvernig skattalegri meðferð afskrifta verður háttað.

Samkvæmt drögunum verður einstaklingum gert að greiða tekjuskatt af 50% afskriftar sem er undir 20 milljónum en greiða skatt af 75% afskriftar sem er umfram 20 milljónir. Fyrirtæki munu aftur á móti þurfa að greiða skatt af 50% afskriftar sem er lægri en 50 milljónir og 75% afskriftar umfram þá tölu. Að mati SA og SFF ganga hugmyndir fjármálaráðuneytisins ekki nægilega langt, „ef vilji stjórnvalda er að kröfuhafar leitist við að rétta fjárhag skuldara sem eru í verulegum greiðsluerfiðleikum,“ eins og orðrétt segir í umsögn SA og SFF. Engin skattskylda á einstaklinga

SA og SFF telja að það væri mjög til bóta ef lögfest yrði heimild til þess að afskrifa skuld niður í upphaflegan höfuðstól láns án þess að það myndi tekjustofn. Þetta geti hjálpað mikið til þar sem „óyfirstíganlegar skuldir hafi orðið til við stökkbreytingu lána í erlendri mynt, auk þess sem hið efnahagslega hrun hafi valdið ýmis konar röskun á fjárhagsstöðu einstaklinga í landinu“. Fjármálaráðuneytið hefur horft til þess í vinnu sinni að lögin taki mið af því að bankar geti ekki afskrifað skuldir á stóra skuldara, t.d. eignarhaldsfélög og fjárfesta, án þess að það hafi nein eftirköst. Frekar er horft til þess að afskriftirnar verði ekki skattlagðar hjá þeim sem þurfa að fá tiltölulega litlar afskriftir til þess að ná endum saman, þ.e. þá oftast nær hjá venjulegu fjölskyldufólki.