„Harður tónn í orðum seðlabankastjóra og yfirlýsingu peningastefnunefndar ber að taka alvarlega,“ segir í umfjöllun á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins um vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands og nýja þjóðhagsspá. „Orðunum er beint til aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda þar sem sagt er nokkuð berum orðum að framhaldið sé í þeirra höndum. Aðlögun er framundan í íslensku efnahagslífi en hvort hún verði mjúk eða hörð veltur á framvindunni,“ segir enn fremur í umfjöllun samtakanna.

Að mati SA hefur Seðlabankinn á undanförnum árum sýnt í verki að þegar ákvarðanir á vinnumarkaði eða í ríkisfjármálum ógni verðstöðugleika þá muni stýrivextir hækka. Benda samtökin á kjarasamninga 2011 og 2015 þegar Seðlabankinn varaði við of miklum launahækkunum og hækkað vexti í kjölfar samninganna.

Samtökin segja það vekja athygli hve mikið hagvaxtarspá Seðlabankans hafa verið lækkuð í nýrri þjóðhagsspá. „Gangi spá Seðlabankans eftir er þetta minnsti hagvöxtur sem mælst hefur frá árinu 2012 og leiðrétt fyrir mannafjölda þá dregst hagvöxtur saman; það gerðist síðast á árinu 2010. Þessi breyting á spá bankans á aðeins þremur mánuðum er til marks um þann hraða viðsnúning sem verið hefur í íslensku hagkerfi,“ segir í umfjöllun SA.

Samtökin draga fram fjóra hagvísa sem lýsi umræddum viðsnúningi. Í fyrsta lagi dragi úr umsvifum ferðaþjónustunnar sem þýði lakari hagvaxtarhorfur. Í öðru lagi bendi kannanir til þess að vinnimarkaður fari hratt kólnandi. Þá séu blikur á lofti í efnahagslífi helstu viðskiptalanda Íslands; óvissa sé í kringum útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og neikvæð þróun í Evrópu, sér í lagi skuldavandræði Ítalíu. Lok benda samtökin á að væntingar heimila og fyrirtækja séu nú í sögulegu lágmarki sem geti komið fram í minni vexti einkaneyslu og fjárfestingu.