*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 19. apríl 2015 19:32

Segja skort geta myndast á fersku kjöti

Verkföll BHM sem hefjast á miðnætti munu hafa víðtæk áhrif á matvælaframleiðslu og opinbera stjórnsýslu.

Ritstjórn
Sláturfélag Suðurlands.
Ragnar Axelsson

Verkföll BHM sem hefjast á miðnætti munu hafa víðtæk áhrif á ýmsum sviðum samfélagsins, svo sem í matvælaframleiðslu og í opinberri stjórnsýslu. Slátrun mun ekki geta farið fram á meðan á verkfalli stendur sem gæti þýtt að skortur verði á fersku alifugla- og svínakjöti. Greiðsla vaxta- og barnabóta gæti tafist um meira en viku. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 og RÚV.

50 af 80 starfsmönnum Matvælastofnunar munu leggja niður störf frá og með morgundeginum. Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að verkfallið geti haft veruleg áhrif á fyrirtæki í matvælaframleiðslu. Innflutningur og útflutningur dýraafurða til og frá mikilvægum viðskiptalöndum muni stöðvast þar sem heilbrigðisvottorð verða ekki gefin út. Jón sagði mikla fjárhagslega hagsmuni vera í húfi og að áhrifin séu víðtækari en fólk geri sér grein fyrir.

Ekkert verður slátrað hjá Sláturfélagi Suðurlands á meðan á verkfallinu stendur, en lög gera ráð fyrir að dýralæknar séu viðstaddir slátranir. Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að þó dýrum verði áfram slátrað af dýravelferðarástæðum sé óljóst hvort hægt verði að selja kjötið. Því megi gera ráð fyrir að ferkt svínakjöt og alifuglakjöt klárist fljótlega í verslunum. Þó ekkert framboð verði af fersku kjöti sé nóg til af frosnu kjöti.

Forstjóri Fjársýslu ríkisins sagði í kvöldfréttum RÚV að að öðru óbreyttu muni næsta greiðsla vaxta- og barnabóta ekki fara fram fyrr en nokkrum dögum eftir að verkfalli BHM lýkur, 8. maí. Þó er búið að sækja um undanþágu til að greiðsla þessara bóta geti orðið um mánaðarmótin.