Skynsamlegt var fyrir lífeyrissjóðina að semja um uppgjör gjaldmiðlaskipta- og vaxtasamninga þar sem áættanleg niðurstaða fékkst og breytir dómur Hæstaréttar í máli Norvik því ekki, að mati Landssamtaka lífeyrissjóða sem segir rangt að lífeyrissjóðirnir hafi að óþörfu greitt þrotabúi gamla Landsbankans háar fjárhæðir vegna uppgjörs samninganna.

Í vefritinu Kjarnanum í morgun segir að lífeyrissjóðir, sjávarútvegsfyrirtæki og ýmis félög hafi greitt slitastjórn gamla Landsbankans tugi milljarða króna í uppgjöri á gjaldmiðlaskipta- og vaxtasamningum sem gerðir voru fyrir hrun án þess að þurfa þess. Kjarninn segir að í máli gamla bankans gegn Norvik í Hæstarétti fyrr í mánuðinum hafi niðurstaðan verið sú að samningarnir hafi verið gerðir á fölskum forsendum og að óþörfu. Miðað við gengisvísitöluna 175 námu skuldir lífeyrissjóðanna við gamla Landsbankann vegna afleiðusamninga um 35 milljörðum króna að teknu tilliti til skuldajöfnunar.

Landssamtök lífeyrissjóða segir forsendur dóms Hæstaréttar þar sem Norvik var sýknað af kröfu gamla Landsbankans um greiðslu afleiðusamninganna ekki hafa átt við um samninga lífeyrissjóðanna.

Rök Landssamtaka lífeyrissjóða eru eftirfarandi:

  • Dómurinn í máli Norvikur hf. er um samtvinnaða vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamninga sem gilda áttu 2-3 ár fram yfir hrun.  Dómurinn byggir einkum á því að vanefndir bankans á greiðslum hans skv. vaxtaskiptahluta samninganna hafi gefið stefnda réttmæta ástæðu til að skilja tilkynningu sem hann og margir aðrir fengu frá bankanum þannig að samningarnir væru felldir niður.  Aðgerðaleysi bankans hafi ýtt undir þann skilning. Rétturinn leggur áherslu á lengd samninganna í þessu sambandi.
  • Megnið af afleiðusamningum lífeyrissjóða við LBI voru framvirkir skiptasamningar með gjaldeyri með nokkurra mánaða gildistíma.  Flestir voru með gjalddaga á árinu 2008 en nokkrir  á fyrstu mánuðum ársins 2009.  Þessir samningar kölluðu ekki á sýnilegar efndir af hálfu bankans með  sama hætti og samningar Norvikur.  Dómurinn hefði því ekki verið fordæmisgefandi um þá samninga.
  • Lífeyrissjóðirnir áttu sameiginlega í viðræðum við stjórnvöld og alla bankana um stöðu gjaldmiðlasamninganna strax í október 2008 og áfram eftir það.  Umfang viðskipta lífeyrissjóða við banka er slíkt að stjórnendur þeirra og föllnu bankanna hlutu að ræða uppgjörsmál fljótt eftir fall bankanna og láta reyna á innheimtu eða samninga.  Lífeyrissjóðirnir áttu þess því aldrei kost að „njóta“ tómlætis af hálfu bankanna, líkt og byggt er á í máli Norvíkur þannig að þeim væri gefið tilefni til að ætla að bankinn hefði fallið frá kröfum skv. samningunum.
  • Forsenda dómsins er sú að mótaðili bankans hafi fengið umrædda tilkynningu. Hafi það ekki gerst kemur spurning um fordæmi dómsins ekki til álita. Einhverjir sjóðir munu hafa fengið tilkynninguna en aðrir ekki.  Af framangreindum ástæðum hefðu þeir þó í engu tilviki getað byggt á sömu sjónarmiðum og gert var í umræddum dómi í máli Norvikur hf.
  • Sjóðirnir fengu mörg lögfræðiálit um skuldbindingargildi gjaldmiðlasamninganna og um viðmið fyrir uppgjöri þeirra. Fram komu sterkar röksemdir fyrir því að víkja bæri samningunum til hliðar vegna margvíslegrar markaðsmisnotkunar af hálfu bankanna fyrir hrunið.  Það var samdóma niðurstaða þeirra sem sjóðirnir leituðu til að málferli um gildi samninganna væru áhættusöm svo skynsamlegt væri að leita samninga til að takmarka tjón sjóðanna sem mest.  Var sú leið valin og tókst í þeim samningum sem gerðir voru að takmarka mjög veruleg neikvæð áhrif af uppgjöri samninganna á fjárhag sjóðanna.  Töluverður fjöldi dóma hefur fallið sem staðfesta að skynsamlegt var að semja um uppgjör samninganna þar sem ásættanleg niðurstaða fékkst.  Dómur í máli Norvíkur breytir ekki því mati.