Heimasíðan Vefþjóðviljinn segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um það sem þeir kalla merkingarleysuna „áframhald viðræðna við ESB“ muni kosta skattgreiðendur hátt í einn milljarð króna auk alls kyns óbeins kostnaðar og vinnutaps í þjóðfélaginu við kosningabaráttuna.

Segja þeir sóknarprest á Akureyri hafa sparað þjóðinni þessa upphæð og óþarfa umræðu því hann hafi á dögunum sent fyrirspurn til Evrópusambandsins um möguleika Íslendinga á að fá undanþágur frá regluverki sambandsins.

Ekki um neinar viðræður að ræða

Á bloggsíðu sinni segir Sr. Svavar Alfreð Jónsson sóknarprestur í Akureyrarkirkju frá svarinu sem hann fékk sem var afdráttarlaust.

Ekki væri um neinar viðræður að ræða um reglur sambandsins, heldur yrðu umsóknarþjóðirnar að taka þær upp.

Snúast um hvernig og hvenær, ekki hvort reglur sé teknar upp

„Aðildarviðræðurnar snúast í grunninn um hvernig og hvenær umsóknarþjóðin muni taka upp og koma í gildi öllum reglum og aðferðafræði ESB. Aðiladarviðræðu snúast um aðstæður og tímasetningu upptöku og virkjunar á núgildandi lögum og reglum ESB,“ segir meðal annars í svarinu sem hann fékk.

„Vinsamlegast takið eftir því að víðtækt samþykktarferli ESB á að tryggja að nýjar þjóðir eru eingöngu samþykktar í bandalagið þegar þær geta sýnt fram á að þær geti uppfyllt hlutverk sitt sem aðildarþjóðar að fullu, það er með því að hlýta öllum stöðlum og reglum ESB, eftir að hafa fengið samþykki stofnana og aðildarþjóða ESB, og eftir að hafa fengið samþykki borgaranna, í gegnum þjóðþing eða þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í samræmi við handbók ESB fyrir umsóknarríki

Vefþjóðviljinn segir þetta ekki verða mikið skýrara og vera í samræmi við handbók sem Evrópusambandið gaf út fyrir umsóknarríki.

„Pakkinn er ekki innpakkaður. Það geta allir séð hvernig Evrópusambandið er og tekið afstöðu til þess hvort Ísland eigi sækja um aðild. Það þarf engar langdregnar aðildarviðræður sem kostað geta mörg hundruð milljónir króna,“ segir í nýlegum pistli á síðunni.

„Samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti Íslendinga andvígur aðild að Evrópusambandinu. Og ekki verður annað séð að hið sama gildi um hið nýkjörna þing. Þar eru andstæðingar aðildar í meirihluta og eindregnir stuðningsmenn fáir.“