Hagnaður N1 fer rétt aðeins yfir milljarðinn og verður 1.006 milljónir króna á árinu, gangi afkomuspá IFS Greiningar á fyrirtækinu eftir. Þar af er gert ráð fyrir því að hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi muni nema tæplega 295 milljónum króna. Til samanburðar nam hagnaður N1 77,4 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi í fyrra og tæplega 671 milljón króna á öllu síðasta ári. Gangi spáin eftir eykst hagnaður N1 um 50% á milli ára.

N1 birtir uppgjör sitt fyrir fyrri hluta ársins og annan ársfjórðung 28. ágúst næstkomandi.

Í afkomuspá IFS Greiningar segir að árstíðavelta sé í rekstri N1 þar sem veltan er minni yfir vetrarmánuðina en taki svo við sér á öðrum ársfjórðungi. Hún nái svo hámarki á þeim þriðja. Þá er bent á það í spánni að heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði um 7,3% að meðaltali á öðrum ársfjórðungi á milli ára mælt í íslenskum krónum. Gengi krónu styrktist um 6,3% á sama tíkma að meðaltali gagnvart Bandaríkjadal. Þróunin ætti að auka veltu í sölu á eldsneyti. Þá er á það bent að aukin flugumferð ætti líka að auka olíusölu.

Í afkomuspánni er gert ráð fyrir því að tekjur aukist um 4,6%, að EBITDA nemi 3,8% af tekjum á öðrum ársfjórðungi en að hagnaður vegna sölu eignarinnar að Ægisíðu auki arðsemina. Hins vegar er gert ráð fyrir því að EBITDA veðri 23% af framlegð á árinu. Það er undir markmiði stjórnenda N1 sem hljóðar upp á 27-30% framlegð.