Greiningardeild Arion banka telur mannfjöldaspá Hagstofu Íslands býsna mótsagnakennda að því er kemur fram í nýrri greiningu.

Nýja mannnfjöldaspáin gerir ráð fyrir því að meira 23.000 manns flytji til landsins frá síðustu áramótum til ársloka 2021. Í fyrra fjölgaði íbúum um nærri 6.000 og samkvæmt spánni yrði það aðeins upphafið að mesta fólgsfjölgunarskeiði frá árunum eftir seinna stríð. Umrædd fólksfjölgun mun að langmestu leyti vera borin uppi á aðfluttum umfram brottflotta.

„Þó að sjaldan hafi verið jafn auðvelt að flytja á milli landa og þörf sé á auknu vinnuafli höfum við efasemdir um að slík fólksfjölgun geti staðist. Gildir þá einu hvort horft er til hagvaxtar, atvinnuleysis eða húsnæðismarkaðar,“ segir í greiningunni.

Þá segir jafnframt að verði mannfjöldaspáin að veruleika muni það verða til þess að húsnæðisskorturinn muni versna til muna. Ennfremur segir að fólksflutningar fylgi hagvexti og búferlaflutningar hafi haldist í hendur við hagvöxt, einkum eftir inngöngu Íslands í EES árið 1994. Það skjóti því skökku við að framundan sé fordæmalaus fjölgun vegna fólksflutninga til landsins á sama tíma og m.a. Hagstofan sjálf spái því að hagvöxtur fari minnkandi.

Að lokum segir að rætist mannfjöldaspáin hafi það annað hvort í för með sér mikið atvinnuleysi eða blússandi hagvöxt en líklegra þykir að atvinnustigið þurfi undan að láta þar sem framleiðni vinnuafls vex almennt séð í frekar svipuðum takti eða um 1-2% á ári. Reynist spáin rétt, sem Greiningardeild Arion banka telur hæpið, gæti hún falið í sér að atvinnuleysi fari upp í 7% innan fimm ára sem sé svipað og á árunum eftir hrun.