„Rekstur hins opinbera er á mörkum þess að vera sjálfbær. Opinberar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu eru tvisvar til þrisvar sinnum hærri en hjá hinum Norðurlöndunum og aldursbreytingar á komandi áratugum munu reynast Íslendingum þungur baggi. Þá hafa aðhaldsaðgerðir stjórnvalda í kjölfar fjármálahrunsins fyrst og fremst falist í takmörkun nýrra fjárfestinga í stað hagræðingar í rekstri. Skattbyrði heimila og fyrirtækja mun þyngjast verulega á næstu áratugum ef umfang hins opinbera verður ekki tekið til endurskoðunar.“

Þetta eru upphafsorð úttektar Viðskiptaráðs Íslands á útgjöldum og starfsemi hins opinbera sem ekki telst til grunnhlutverka þess. Þar kemur fram að nauðsynlegt sé að forgangsraða verkefnum stjórnvalda. Sumt sé nauðsynlegt að hið opinbera sjái alfarið um, í ákveðnum tilfellum dugi að ríki eða sveitarfélög fjármagni þjónustu en eftirláti einkaaðilum framkvæmd, en í öðrum tilfellum sé opinber aðkoma óþörf yfir höfuð.

Þanist út síðustu áratugi

Fram kemur í úttekt Viðskiptaráðs að hið opinbera hafi þanist út á síðustu áratugum. Á Íslandi nemi opinber útgjöld nú um 44% af öllum útgjöldum en námu aðeins 20% af heildarútgjöldum við lok seinni heimsstyrjaldar. Þetta aukna umfang sé fjármagnað með skatttekjum og skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja hafi því vakið með samsvarandi hætti.

Þá segir einnig að breytt aldurssamsetning geri það að verkum að sífellt hærra hlutfall einstaklinga verði utan vinnumarkaðar á komandi árum. Hin breytta aldurssamsetning muni einnig leiða til hærri opinberra útgjalda, sérstaklega vegna heilbrigðisþjónustu.

„Án grundvallarbreytinga munu opinber útgjöld því aukast verulega á sama tíma og sífellt lægra hlutfall einstaklinga stendur undir skattbyrðinni sem af þeim hlýst. Einstaklingar á vinnumarkaði þurfa því að óbreyttu að bera mun þyngri byrðar en áður, verði ekki brugðist fljótt við,“ segir í úttektinni.

Samfélagsmótun kostar rúma 100 milljarða

Í úttektinni segir að í megindráttum megi skipta hlutverki hins opinbera í fimm þætti: Stjórnkerfi, markaðsbresti, grunnþjónustu, framfærslu og samfélagsmótun. Veigamikil rök hnígi að aðkomu hins opinbera að fyrstu fjóru þáttunum, en þegar komi að samfélagsmótun séu inngrip stjórnvalda umdeilanlegri.

Samkvæmt tölum Viðskiptaráðs er langsamlega mestum fjármunum varið í grunnþjónustu, eða 310 milljörðum árið 2013. Þar á eftir komi kostnaður vegna framfærslu einstaklinga (130 milljarðar króna), en þriðji hæsti útgjaldaliðurinn felist í samfélagsmótun. Þar nemur kostnaður hins opinbera 100 milljörðum króna sé miðað við árið 2013.

Með samfélagsmótun er átt við þá starfsemi stjórnvalda sem miðar að því að skapa störf eða móta þjóðfélagið með margvíslegum hætti, en dæmi um slíkt gæti verið sorphirða, fríhafnarverslun eða fjölmiðlarekstur.

„Að mati Viðskiptaráðs er samfélagsmótun stjórnvalda í flestum tilfellum skaðleg almannahagsmunum. Í sumum tilfellum raskar slík starfsemi eðlilegri samkeppni, sem er grunnforsenda bættra lífskjara. Í öðrum tilfellum er samfélagsmótun neikvæð afleiðing sérhagsmunabaráttu sem leiðir til þess að skattfé margra er notað til að niðurgreiða starfsemi fárra,“ segir í úttektinni.

Samfélagsmótun verði endurskoðuð

Viðskiptaráð segir að upp að vissu marki ríki almenn sátt um hlutverk hins opinbera. Þannig séu til dæmis flestir sammála um að aðgengi að grunnþjónustu og lágmarkslífsviðurværi eigi að vera tryggt og fjármagnað af hinu opinbera. Hins vegar hafi hið opinbera auk þess tekið að sér samfélagsmótandi hlutverk, og á meðan svo sé muni umræða um rekstur hins opinbera alltaf markast af deilum um þá starfsemi. Minnihluti almennings vilji til að mynda að hið opinbera fjármagni Íbúðalánasjóð, þjóðkirkjuna, Íslandspóst og Bændasamtökin.

„Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að taka samfélagsmótun hins opinbera til grundvallarendurskoðunar. Slík endurskoðun er til þess fallin að draga úr sóun á opinberu fé og bæta samkeppnisumhverfið í fjölmörgum atvinnugreinum. Þannig má búa íslenskt samfélag betur undir að mæta mæta áskorunum komandi áratuga.“

Úttekt Viðskiptaráðs má lesa í heild sinni hér .