Mörg kostnaðarsöm verkefni bíða úrlausnar Alþingis á milli 2. og 3. umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Þar má nefna byggingu nýs Landspítala, Íbúðalánasjóð, Hörpu, löggæslumál, strandsiglingar og margt annað sem stjórnarmeirihlutinn segir að vænta megi á útgjaldahlið við lokaafgreiðslu fjárlaga ársins 2013. Í áliti minnihluta fjárlaganefndar segir að af þessu megi merkja að aðhaldsmarkmið og stjórn fjármála ríkisins séu algerlega farin úr böndum.

Í álitinu segir að af frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 sé ljóst að stjórnarflokkunum hafi enn ekki tekist að koma böndum á ríkisútgjöld. Hallarekstur ríkissjóðs sé of mikill, áætlanir sem gerðar hafi verið um bata í þeim efnum gangi ekki eftir og að breytingartillögur ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umræðu fjárlaga séu ótvíræður vitnisburður þess.

Minnihlutinn segir að meginverkefni Alþingis við fjárlagagerð nú ætti að felast í samvinnu við ríkisstjórnina um endurskipulagningu á rekstri ríkissjóðs með það að markmiði að fá meiri þjónustu fyrir minna fé, greiða niður skuldir ríkissjóðs til að draga úr vaxtabyrði og leita leiða til að stækka skattstofna sem mun auka tekjur ríkissjóðs. Í stað þess hafi núverandi ríkisstjórn efnt til átaka við aðila vinnumarkaðarins og helstu útflutningsatvinnuvegi landsmanna.