Stjórn og stjórnendum Íslenskrar afþreyingar, sem áður hét 365 hf., bar að óska eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta mun fyrr en gert var. Hafi þeir því brotið gegn ákvæðum gjaldþrotalaga og valdið kröfuhöfum umtalsverðu tjóni.

Þetta er niðurstaða dómskvaddra matsmanna í skaðabótamáli Landsvaka hf. gegn fyrrverandi stjórnarmönnum Íslenskrar afþreyingar, þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni, Magnúsi Ármann og Þorsteini M. Jónssyni.

Málið er höfðað vegna sölu á fjölmiðlahluta Íslenskrar afþreyingar til Rauðsólar árið 2008.

Matsmennirnir telja tjón Landsvaka umtalsvert, jafnvel á annað hundrað milljónir króna.

Fleiri dómsmál hafa verið höfðuð í tengslum við þessi viðskipti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.