Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa sent frá sér ályktun vegna uppsagna hjá stofnuninni í gær. Þar segir að stjórnvöld beri ábyrgð á alvarlegri stöðu stofnunarinnar og starfsmenn hafi verulegar áhyggjur af framtíð hennar. Þeir segja jafnframt að uppsagnirnar hafi áhrif á kjarnastarfsemi hennar, þvert á orð Sigurðar Guðjónssonar, forstjóra, um hið gagnstæða.

Eins og Fiskifréttir greindu frá í gær hverfa 14 starfsmenn frá stofnuninni eftir uppsagnirnar.

Ályktun starfsmanna, sem var samþykkt á fundi þeirra í dag, er svohljóðandi:

Ályktun fundar starfsmanna Hafrannsóknastofnunar 22. nóvember 2019

Þann 21. nóvember 2019 var 14 starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar  sagt upp og þar af þremur boðið nýtt starf sem þeir höfnuðu.   Aðgerðirnar voru fyrirvaralausar, harkalegar og án fullnægjandi skýringa. Ljóst er að verðmæt sérfræðiþekking hverfur frá stofnuninni og mikil eftirsjá er að því starfsfólki sem sagt var upp.

Að sögn Sigurðar Guðjónssonar forstjóra Hafrannsóknastofnunar voru aðgerðirnar framkvæmdar í samráði við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og eiga ekki að hafa áhrif á kjarnastarfsemi stofnunarinnar og öllum helstu verkefnum haldið áfram.

Að mati starfsmanna munu aðgerðirnar þvert á móti hafa neikvæð áhrif á kjarnastarfsemi stofnunarinnar.

Stjórnvöld bera ábyrgð á alvarlegri stöðu stofnunarinnar og starfsmenn hafa verulegar áhyggjur af framtíð hennar.