*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 25. maí 2013 14:15

Segja stjórnvöld geta styrkt stöðu sína gagnvart kröfuhöfum

Lögfræðiálit frá Íslögum gefur til kynna að íslensk stjórnvöld gætu með lagabreytingu þrengt enn frekar að kröfuhöfum föllnu bankanna.

Ritstjórn
Unnið hefur verið að slitum gömlu bankanna um fjögur og hálft ár og ekki sér fyrir endan á því.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Með því að beita löggjafarvaldinu í ríkara mæli og meðal annars afnumið tafarlaust undanþágu sem heimilar vaxtagreiðslur til erlendra aflandskrónueigenda í gjaldeyri gætu stjórnvöld styrkt stöðu sína enn frekar gagnvart kröfuhöfum í þrotabú föllnu bankanna.

Þetta kemur fram í lögfræðiáliti sem Íslög hafa unnið en fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag. Lögfræðiálitið er unnið af þeim Ástríði Gísladóttur og Sigurði Snædal Júlíussyni fyrir þann hóp sem stendur að baki vefsíðunni snjohengjan.is en þar fer Róbert Wessmann, forstjóri Alvogen, fremstur í hópi. Í fréttinni kemur fram að stefnt sé að því að kynna lögfræðiálitið fyrir forsvarsmönnum nýrrar ríkisstjórnar á næstu dögum.

Þá greinir Morgunblaðið frá því að mikilvægustu skrefin sem stjórnvöld gætu tekið er í fyrsta lagi það að breyta lögum þannig að Glitnir og Kaupþing verði settir í greiðsluþrot náist ekki að klára nauðasamninga fyrir næstu áramót. Í öðru lagi þannig að einungis yrði hægt að greiða út úr þrotabúunum í íslenskri mynt og loks að afnema þær undanþágur sem eru í gildi varðandi þær íslensku krónur sem eru fastar á höfuðbók 27 í Seðlabanka Íslands og bera vexti. Undanþága í dag heimilar erlendum krónueigendum að flytja úr landi vaxtagreiðslur í gjaldeyri.

Sem fyrr segir er nánar fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.