New York Times fjallar um þær hindranir sem erlendir fjárfestar þurfa að glíma við til að geta fjárfest í íslenskum ríkisskuldabréfum og öðrum fjárfestingum. Segir greinin að eftir að hafa eytt nálega áratug í að reyna að halda erlendu fé inn í landinu eftir síðasta fjármálahrun, sé landið nú að reyna að halda sumu af því úti.

Vísa þeir í að eftir fleiri en 20 fjármálakrísur í landinu síðan árið 1875, og viðvaranir frá hagfræðingum um hættuna á því að hagkerfið ofhitni á ný, sé ríkisstjórnin varkár. Hafi hún því sett inn takmarkanir sem geri það mjög dýrt að kaupa ríkisskuldabréf, sem gefa 4,5% ávöxtun, sem sé það hæsta sem þekkist í nokkru þróuðu hagkerfi.

Myndu elska að geta fjárfest hérlendis

Vísar fréttin einnig í aðgerðir Seðlabankans frá því á mánudaginn sem enn frekar takmörkuðu notkun afleiða og annarra fjármálagerninga sem stjórnvöld höfðu áhyggjur af að væru notaðar til að veðja á krónuna. Segir greinin aðgerðirnar tilraun til að reyna að brjótast út úr vítahring mikilla upp- og niðursveiflna í hagkerfinu.

„Það er fullt af fólki sem ég þekki sem myndi elska það að geta fjárfest á Íslandi en geta það ekki vegna takmarkana á innflæði,“ segir Mark Dowding, sem rekur vogunarsjóðin BlueBay Asset Management, en hann keypti sig inn á markaðinn árið 2015, áður en reglurnar voru kynntar til sögunnar.

Segja ríkisstjórnina takmarka fjárfestingar

Jafnframt fjallar greinin um aðrar aðgerðir ríkisstjórnarninnar til að draga úr eftirspurn eftir fjárfestingum hérlendis, öfugt við önnur ríki, til að mynda hugmyndir um skattahækkanir á ferðaþjónustuna og jafnvel fastgengisstefnu fyrir krónuna. Vísar greinin einnig í væntingur um meira en 6% hagvöxt á árinu og fimmtungsstyrkingu krónunnar gagnvart bæði Bandaríkjadal og evru á síðustu 12 mánuðum.

Jafnframt að Seðlabankinn hafi lækkað stýrivexti fjórum sinnum á undangengnu ári og greinendur segji að það þurfi að lækka meira til að draga úr styrkingu krónunnar. En það muni enn frekar ýta undir styrk hagkerfisins.

Einstaklega spennandi markaður

„Einu sinni á hverjum áratug eða tveimur, tek ég eftir markaði erlendis sem er einstaklega spennandi og þess virði að skoða,“ segir Gervais Williams, stjórnandi hjá Miton Group í London. „Þetta gerðist síðast árið 1995 á Írlandi og núna er Ísland markaðurinn sem mér líkar við.“

Jafnframt fjallar greinin um nýja sjóði Gamma Capital Management sem settir voru upp vegna áhuga erlendra aðila á að fjárfesta hérlendis.

„Við höfum verið að fá mikinn áhuga...en það eru hindranir í vegi fyrir því að fjárfesta á Íslandi, svo við bjuggum til auðvelda leið til þess,“ segir Hafsteinn Hauksson, hagfræðingur hjá Gamma, en hann segir báða sjóðina hafa meira en tvöfaldast að stærð á síðasta ári.