Atvinnuþátttaka mældist 81,8% í september síðastlðnum samanborið við 80,6% á sama tíma fyrra. Fjöldi starfandi voru 177.000 í mánuðinum. Á sama tíma í fyrra var fjöldi starfandi 171.500, samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar. Atvinnuleysi mældist 5,2% í mánuðinum en var 4,9% fyrir ári.

Greining Íslandsbanka telur að þrátt fyrir þetta beri tölurnar ekki með sér að bakslag sé á vinnumarkaði síðustu misserin. Fram kemur í Morgunkorni Greiningar að reiknað sé með því að staðan muni batna áfram:

„Eins og fram kom í þjóðhagsspá okkar sem við birtum í síðustu viku reiknum við með að atvinnuástandið haldi áfram að batna á næstu árum og atvinnuleysi verði komið niður í 4,0% á árinu 2015 samanborið við 4,6% í ár. Er slakinn þá horfinn úr efnahagslífinu og atvinnuleysi komið nálægt því sem ætla mætti að verði jafnvægisatvinnuleysi á þeim tíma, en jafnvægisatvinnuleysi hefur hækkað töluvert frá því sem það var fyrir hrun. Þess má geta hér í lokin að hér ræðir um tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi, sem eru aðrar en þær sem Hagstofan birtir. Almennt hafa innlendir aðilar sem spá opinberlega um þróun atvinnuleysi frekar notað þær tölur, en það ætti að koma í svipaðan stað niður enda er leitni þeirra beggja í sömu átt þrátt fyrir að þeim ber oft ekki saman í einstökum mánuðum.“