Ef heldur sem horfir gæti ríkissjóður farið í að lækka skuldir sínar í krónum talið fyrr en áætlað var. Þetta er mat greiningardeildar Arion banka sem fjallar um greiðsluafkomu ríkissjóðs. Í Markaðspunktum deildarinnar segir að það sem af er ári hafi tekjur ríkissjóðs verið umtalsvert umfram væntingar í greiðsluuppgjöri fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Deildin bendir á að arðgreiðslur Landsbankans hafi skilað þessu að stórum hluta auk þess virðist helstu tekjustofnar ríkissjóðs vera að styrkjast. Það sé einmitt í takt við þá þróun að einkaneysla og hagvöxtur í heildina sé sterkari en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu 2014.

Deildin segir:

„Nú liggur fyrir að jákvæð tekjuþróun það sem af er ári muni koma fram í endurmati á tekjuáætlun í frumvarpi til fjáraukalaga, en það verður lagt fram í næsta mánuði. Ef tekjuáætlun ríkissjóðs verður færð upp á við getur það haft töluverð áhrif á áætlaða afkomu ríkissjóðs í ár og einnig smitast yfir á næsta ár við gerð fjárlagafrumvarpsins 2015. Eykur það líkur á því að ákveðin vatnaskil séu framundan í ríkisfjármálum þar sem hreinn lánsfjárjöfnuður gæti orðið lítill sem enginn á þessu ári eða því næsta. Það þýðir að ríkissjóður þarf ekki lengur að fjármagna hallarekstur með lántöku á innlendum mörkuðum.“