Stýrivextir voru lækkaðir of hægt árið 2009, of hratt ári síðar en hafa verið hækkaðir of hægt í fyrra.  Stýrivextir eru þrátt fyrir þetta hárréttir nú um stundir, að mati greiningardeild Arion banka. Stýrivextir standa nú í 5,75%.

Fjallað er um Taylor-hagstjórnarregluna í Markaðspunktum deildarinnar í dag. Reglan felur í sér stöðluð hagstjórnarviðbrögð við mismunandi aðstæður. Bent er á að Seðlabankinn er með eigin útgáfu af slíkri reglu, svokallaða framsýna Taylor-reglu með ákveðnum sérkennum.

„Þótt bankinn treysti reglunni ekki í blindni er hún vafalaust höfð til hliðsjónar við stýrivaxtaákvarðanir, auk þess sem hún er mikilvæg við alla spágerð bankans þar sem spálíkan hans (QMM-líkanið) gerir ráð fyrir að vextir séu ákvarðaðir í samræmi við regluna,“ segir í Markaðspunktunum og bent á að gangi spá Seðlabankans eftir þá sé samkvæmt Taylor-reglunni rúm til hækkunar stýrivaxta upp á 25 punkta í mesta lagi fyrir árslok. Frá næsta ári verði vöxtum síðan haldið nokkuð stöðugum, eða þeir lækkaðir, á meðan lækkandi verðbólgu verði leyft að herða raunaðhald peningastefnunnar um leið og slakinn breytist í spennu.