Einstaka verkalýðsforingjar víla ekki fyrir sér að fara með rangt mál og ýkja stórlega afkomu sjávarútvegsins í tengslum við umræðum um nýgerða kjarasamninga. Þetta er fullyrt á vef Samtaka atvinnulífsins (SA) og bent á að rangt sé farið með afkomutölur fyrirtækja í sjávarútvegi þegar rætt sé um svigrúm atvinnulífsins til launahækkana.

Á vef SA segir að árið 2012, sem var eitt besta afkomuárið í sögu sjávarútvegs á Íslandi, nam hagnaður eftir skatta 35 milljörðum króna. Frá þeim tíma hafi afurðaverð lækkað, t.d. sjófrystar afurðir um 14%, og afkoman því versnað. Þrátt fyrir víla einstaka verkalýðsforingjar ekki fyrir sér að ýkja stórlega afkomu sjávarútvegsins með því að fjalla um rekstrarafgang greinarinnar fyrir greiðslu fjármagnskostnaðar og skatta.

„Gera verður þá kröfu að rétt sé farið með en ítrekað hefur verið fullyrt í opinberri umræðu að hagnaður sjávarútvegins sé rúmlega tvöfalt meiri heldur en hann raunverulega er,“ segir á vef SA.

Þar er jafnframt bent á að á árinu 2012 greiddu sjávarútvegsfyrirtæki 85 milljarða króna í laun, 10 milljörðum meira en árið 2010. Sérstakt átak hafi verið gert árið 2011 til að hækka laun fiskvinnslufólks umfram aðra. Laun sjómanna eru beintengd afurðaverði og þróist því með sama hætti og afkoma útgerða en sjómenn eru meðal tekjuhæstu stétta á Íslandi. Framlag greinarinnar til þjóðarbúsins sé einnig umtalsverð en skattgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja hafi stóraukist á undanförnum árum, farið úr 11 milljörðum króna árið 2010 í 20 milljarða tveimur árum síðar.