Ef ekki verður farið í frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi mun það á næstu árum leiða af sér ýmsa erfiðleika hjá raforkunotendum og kosta þjóðfélagið milli þrjá og 10 milljarða króna á ári – eða á bilinu 36 – 144 milljarða króna næsta aldarfjórðunginn. Þetta sýna niðurstöður nýrrar skýrslu sem unnin var fyrir Landsnet.

Í tilkynningu frá Landsneti er grein frá skýrslunni. Í henni er reynt að meta hversu mikils virði það er fyrir þjóðfélagið að halda áfram uppbyggingu raforkukerfisins svo hægt sé að anna álagsaukningu næstu ára og áratuga hringinn í kringum landið. Höfundar hennar eru Jón Vilhjálmsson hjá EFLU verkfræðistofu og Friðrik Már Baldursson prófessor við Háskólann í Reykjavík.

Aðferðafræði þeirra byggist í meginatriðum á að bera annars vegar saman óbreytt núverandi raforkukerfi - með stöðugt meiri takmörkunum á flutningi raforku þegar fram líða stundir - og hins vegar kerfi sem er án flutningstakmarkana. Kostnaðarmismunur þessara tveggja kosta er síðan reiknaður og talan sem kemur út úr þeim reikningum er sá þjóðhagslegi ávinningur sem uppbygging öflugs flutningskerfis hefur í för með sér.