Tap Íbúðalánasjóðs er hvergi nálægt þeim 270 milljörðum sem birst hefur í fjölmiðlum í vikunni. Hið rétta er að tapið nemur 64 milljörðum króna frá árinu 1999, að mati stjórnenda Íbúðalánasjóðs. Í tilkynningu frá sjóðnum í dag er brugðist við því sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóðs í vikunni. Sjóðurinn segir tapið frá árinu 1999 nema 41 milljarði króna. Til viðbótar því hafi verið lagðir 23 milljarðar króna í varasjóð til að mæta útlánatöpum framtíðar. Samtals geri þetta 64 milljarða.

Í tilkynningunni segir:

„Af þeirri upphæð eru 92% til komin vegna  bankahrunsins. Hvort sem talað er á forsendum reikningsskila eða samkvæmt almennri málvenju er ekki með nokkru móti hægt að tala um 270 milljarða tap, enda gera skýrsluhöfundar það alls ekki.“

Vísað er 14. kafla í 3. bindi skýrslunnar. Þar segir orðrétt:

„...bókfært tap á árunum 1999–2012 nemur alls 100 milljörðum króna á verðlagi ársins 2012. [...] Hugsanlegt tap sjóðsins í framtíðinni, vegna stöðu hans í árslok 2012, er á bilinu 32–170 milljarðar króna. [...]  Allar fjárhæðir í töflunni eru byggðar á ófullkomnu mati, [...]  og þarf því að taka með fyrirvara. Líta má á  heildarniðurstöðuna sem hámark á hugsanlegu tapi sjóðsins í framtíðinni miðað við stöðu hans og markaðsaðstæður í lok árs 2012.”