Minnihluti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ lagði fram tölur á bæjarstjórnarfundi í gær sem sýna að rekstur bæjarsjóðsins hafi verið neikvæður um 1,7 milljarða króna í fyrra. Ef horft er á samstæðureikning bæjarins er reksturinn neikvæður um 2,3 milljarða króna.

Þá heldur minnihlutinn því fram að tæpur þriðjungur af útsvarstekjum bæjarins fari í að greiða húsaleigu. Guðbrandur Einarsson, oddviti minnihlutans, segir endurskoðendur Reykjanesbæjar hafa staðfest að útreikningar minnihlutans séu réttir.

Meirihlutinn segir hagnaðinn endurspegla sterka stöðu

Ársreikningur Reykjanesbæjar fyrir árið 2009 var samþykktur á bæjarstjórnarfundi í gær. Hann sýndi hagnað upp á 7,7 milljarða króna. Ástæðan er sú að Reykjanesbær seldi hlut sinn í HS Orku til Magma Energy á rúma 13 milljarða króna í fyrra. Bókfærður söluhagnaður var rúmir 11 milljarðar króna.

Í bókun meirihluta bæjarstjórnar kemur fram að í hagnaðinum endurspeglist sterk eiginfjárstaða bæjarsjóðs Reykjanesbæjar sem sýni „að bæjarfélagið stendur sterkum fótum og getur þolað umtalsverð áföll í efnahagsþrengingum.[...] Öflug atvinnuuppbygging sem D-listi sjálfstæðismanna í bæjarstjórn hefur barist fyrir, oftast í miklum mótbyr stjórnvalda, er nú brátt að skila sér í hærra launuðum störfum íbúa og þar með auknum rekstartekjum Reykjanesbæjar.“

Minnihlutinn segir sölu eigna fela slæman rekstur með sölu eigna

Minnihluti A-lista í bæjarstjórn lét hins vegar bóka að „Þeir fjármunir sem fengust við söluna í HS Orku eru langt í frá til ráðstöfunar fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Söluvandvirðið var greitt með hlutabréfum í HS veitum fyrir rúma 4.3 milljarða (nafnverð 427 milljónir) og með skuldabréfi (kúluláni) að upphæð 6.3 milljarðar sem greiðast ekki fyrr en 2016. Það reiðufé sem fengist hefur greitt vegna þessarar sölu eru 1.875 milljónir sem greiddar voru á árinu 2009 og 625 milljónir sem greiddar verða á árinu 2010.“

A-listinn segir ennfremur í bókun sinni að gjöld bæjarsjóðs Reykjanesbæjar hafi verið 8,1 milljarður króna í fyrra en tekjur 6,9 milljarðar króna. Því hafi verið gjöld verið 1,2 milljörðum króna hærri en tekjur. Stór útgjaldaliður var vegna greiðslna á húsaleigu Reykjanesbæjar sem námu 1,3 milljarða króna í fyrra, tæp 32% af heildarútsvarstekjum sem voru rúmir 4 milljarðar króna.

Í tölunum sem A-listinn lagði fram segir að rekstarniðurstaða bæjarsjóðs Reykjanesbæjar sé neikvæð um 1,7 milljarða króna. Hef litið er á samstæðureikninginn þá er niðurstaðan neikvæð um 2,3 milljarða króna. Minnihlutinn heldur því fram að það þurfi að grípa til lántöku í ár til að standa undir rekstri Reykjanesbæjar.