Í Vegvísi Landsbankans í dag eru vangaveltur um áhrif þess að skipt um seðlabankastjóra undir fyrirsögninni "Tímabundin óvissa." "Með Davíð Oddsyni er kominn sterkur stjórnandi í Seðlabanka Íslands. Davíð er þekktur fyrir sterkar skoðanir og hefur sýnt að hann nær að framfylgja þeim markmiðum sem hann setur sér. Þessir eiginleikar skipta miklu máli fyrir trúverðugleika Seðlabankans, sérstaklega í ljósi þess að einungis fimm ár eru liðin frá því að bankinn fékk sjálfstæði og er því enn að byggja upp trúverðugleika sinn gagnvart almenningi og fjármálamarkaði," segir Vegvísir Landsbankans.

Þar er einnig bent á að Seðlabanki Íslands stendur frammi fyrir erfiðum verkefnum á næstu misserum. "Virkni peningastefnunnar hefur fyrst og fremst verið í gegn um gengi íslensku krónunnar á meðan áhrifin á vexti og eignaverð hafa látið á sér standa. Aðgerðir bankans mælast því illa fyrir í útflutnings- og samkeppnisgreinum og hafa stjórnmálamenn keppst við að gagnrýna bankann. Útgáfa erlendra aðila á skuldabréfum í íslenskum krónum eykur enn á flækjustig peningastefnunnar. Skipti á Seðlabankastjóra á þessum tímum valda óhjákvæmilega óvissu á fjármálamörkuðum, sem mun ekki skýrast fyrr en Davíð hefur sýnt spilin," segir Vegvísir Landsbankans.