TripAdvisor hefur brugðist við ásökunum þess efnis að fyrirtækið hafi ekki brugðist við flóði falskra einkunnargjafa sem hækkaði einkunnir hótela. Hafnar fyrirtækið því að hafa sofnað á verðinum.

Neytendasamtök sem nefnast Which? segjast hafa tekið eftir „grunsamlegu munstri“ á athugasemdum við hin ýmsu hótel á vef TripAdvisor. Byggir Which? þessa ályktun sína á rannsókn sem samtökin stóðu fyrir. Í rannsókninni tóku samtökin saman 250.000 einkunnagjafir hjá 10 efstu hótelum á 10 vinsælustu ferðamannastöðum í heimi. Eftir að hafa rannsakað málið tilkynntu samtökin 15 af hótelunum 100 til TripAdvisor, vegna gruns um að töluverður fjöldi falskra einkunna lægi að baki hversu hátt hótelin skoruðu. BBC greinir frá þessu.

Which? segir að í aðeins einu tilfelli, þar sem um var að ræða hótel í Jórdaníu, hafi TripAdvisor brugðist við og fjarlægt 730 fimm stjörnu meðmæli.

James Kay, framkvæmdastjóri TripAdvisor á Bretlandi, hafnar þessum ásökunum og segir að fyrirtækið taki falska einkunnargjöf „föstum tökum“, og meira að segja fastari tökum en aðrar áþekkar heimasíður.