Fjölmargir forvitnir íbúar höfuðborgarsvæðisins lögðu leið sína í nýja verslun Jóns Geralds Sullenberger, Kostur, um helgina til að gera helgarinnkaupin. Áætlaður gestafjöldi er í kringum 5000 samkvæmt tilkynningu frá versluninni.

Samkvæmt tilkynningunni var gærdagurinn annasamur en verslunin opnaði á laugardag. Þá tafðist fyrirhuguð opnun vegna vandræða með tölvukerfi verslunarinnar.

„Þau vandræði hafa  nú að mestu verið leyst, en þó er enn nokkuð um vörur sem ekki finnast í tölvukerfinu og er því ekki unnt að selja,“ segir í tilkynningunni en fram kemur að starfsfólk Kosts hafi unnið hörðum höndum að því að skrá allar vörur í tölvukerfið.

Jón Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóri Kosts, áætlar að fimm þúsund manns hafi lagt leið sína í í verslunina opnunarhelgina, laugardag og sunnudag. Fólk hafi verið að kynna sér vöruúrvalið og margir hafi notað tækifærið og gert helgarinnkaupin í versluninni.