Lögmannafélag Íslands segir að ummæli í svokölluðum al-Thani dómi um fund verjenda með fjórum vitni fyrir aðalmeðferð skapi réttaróvissu sem sé bagaleg og geti haft veruleg áhrif á þau sakamál sem séu til meðferðar fyrir dómstólum. Í málinu voru þrír fyrrverandi stjórnenda Kaupþings og einn stærsti eigandinn dæmdir í fangelsi.

„Við aðalmeðferð málsins kom fram að fjögur vitni hefðu átt fund með verjendum ákærðu, Hreiðars Más og Ólafs, fyrir aðalmeðferð málsins og þau kynnt sér gögn málsins á skrifstofu verjendanna. Samkvæmt 3. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 kynnir dómari ekki fyrir vitni skýrslur þess hjá lögreglu eða önnur sýnileg sönnunargögn fyrr en dómara þykir þess þörf til skýringar eða leiðréttingar skýrslu þess. Með því að ræða við vitnin fyrir aðalmeðferð máls og sýna þeim sýnileg sönnunargögn var farið á svig við greind lagafyrirmæli, auk þess sem sú háttsemi var til þess fallin að rýra trúverðugleika vitnanna, sbr. 7. tl. 122. gr. laga nr. 88/2008. Er þetta aðfinnsluvert," segir í dómi fjölskipaðs dóms Héraðsdóms Reykjavíkur. Símon Sigvaldason var formaður dómsins.

Stjórn Lögmannafélag Reykjavíkur segir að þessi niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur komi stjórninni verulega á óvart og telur stjórn félagsins hæpið að túlkun dómara á tilvísuðu lagaákvæði standist. „Samskipti verjenda við vitni eru mikilvægur þáttur við undirbúning málsvarnar og ósjaldan eina leið verjenda til að fá upplýsingar um atvik máls. Af fyrri réttarframkvæmd má ráða að ákæruvaldið hefur rætt við vitni og kynnt þeim sönnunargögn áður en skýrslugjöf fer fram fyrir dómi undir aðalmeðferð máls. Sé verjendum sakborninga meinað um þennan rétt er stórlega vegið að grundvallarreglunni um réttláta málsmeðferð fyrir dómi og jafnræði málsaðila,“ segir í ályktun stjórnar Lögmannafélagsins.

Málið hefur dregð dilk á eftir sér því að bæði í Aurum málinu, þar sem meðal annars Jón Ásgeir Jóhannesson er ákærður, og í máli gegn Sigurjóni Þ. Árnasyni og Elínu Sigfúsdóttur hafa verið lagðar fram bókanir vegna þessa máls.